Bananabrauð

3 vel þroskaðir bananar

1 egg

250 g hveiti/heilhveiti (eða 200 g hveiti og 50 g haframjöl)

110 – 150 g sykur (eftir smekk)

1 tsk salt

1 tsk matarsódi

Þurrefnunum er blandað saman og bananarnir stappaðir (ég set þá stundum bara í blandarann, ásamt egginu), síðan er öllu blandað saman og skellt í jólakökuform. Fínt að strá smá haframjöli ofaná, til skrauts. Brauðið er síðan bakað í 30-45 mínútur við 175°C. Þetta brauð geymist vel, í fjóra jafnvel fimm daga. Það er ekki vitlaust að skera brauðið niður þegar það hefur kólnað og setja sneiðarnar í frysti, þá er auðvelt að taka það út úr frysti á morgnana, smyrja það og taka með sér út í daginn.

Sushigerð, skref fyrir skref

Hrísgrjónin eru gerð samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Sushigrjónin frá Blue Dragon þarf fyrst að skola með því að láta kalt vatn renna í gegnum þau. Best er að nota sigti.

Næst þarf að láta grjónin standa í köldu vatni í 20 mínútur.

Síðan er vökvinn síaður frá og 4 dl af vatni bætt við að nýju. Hrísgrjónin eru síðan soðin á lágum hita í 10 mínútur. Munið að hafa lokið á. Þegar grjónin eru búin að sjóða eru þau tekin af hellunni og látin standa í 10 mínútur, aftur með lokinu (mjög mikilvægt). Að lokum er sérstakt sushi edik (fæst í Bónus og Krónunni) og sykri blandað saman, 2 msk af hvoru. Hitið blönduna aðeins í örbylgjuofni og hellið þessu svo út á hrísgrjónin. Látið hrísgrjónin kólna.

Fyrir fyllingu í sushiið vorum við með:

mangó

vorlauk

avókadó

chilli

kóríander

krabbakjöt

sesamfræ

Fínt að taka avókadóið úr með skeið.

Allt er skorið í strimla eða mátulega bita.

Gott er að hafa skál með vatni til að dýfa fingrunum í, þá er auðveldara að ráða við hrísgrjónin.

Hrígrjónin eiga að vera köld/volg og klístruð.

Hrísgrjónunum er komið fyrir á noriblaðið, en gott er að skilja eftir auða rönd efst, þá er auðveldara að loka rúllunni.

Mér finnst mjög gott að hafa ristuð sesamfræ. Auðvitað getur maður ristað þau sjálfur á pönnu, en það er mjög þægilegt að grípa bara í þennan stauk.

Þetta eru mjög einföld hráefni. Það er að sjálfsögðu hægt að flækja þetta og hafa meira af hráum fiski, djúpsteiktar rækjur, spicy majó og ýmislegt fleira.

Auða röndin er svo vætt aðeins með vatni.

Síðan rúllum við þessu bara upp með bambusmottunni.

Rúllan er síðan skorin í um það bil 2 cm þykka bita.

Sushiið er best borið fram með góðri soyasósu, wasabi og súrsuðum engifer.

Hafragrautur

1 dl haframjöl

1 msk chia fræ

3 dl vatn (hljómar kannski mikið, en chia fræin draga slatta í sig)

1/4 tsk salt

1 tsk kanill

1 daðla (skorin í mjög litla bita)

Soðið saman í potti.

Ofan á grautinn:

hálft lítið epli (skorið í litla bita)

þurrkuð trönuber

möndluflögur

fjörmjólk

Servíettubrot

Þessi servíettubrot eru mjög einföld.

Svona er servíettan brotin, sitt á hvað.

Svona.

Svona er brotið áfram, rétt rúmlega fram yfir miðju servíettunnar.

Þá er ,,kassinn“ brotinn horn í horn.

Þá er ,,flipinn“ sem stendur eftir brotinn undir kantinn, eins og sést á myndinni.

Servíettan er ,,opnuð“ og lögð á diskinn. Voilá!

Hvítlauksbrauð

1/2 pakki þurrger

6-7 dl heilhveiti eða hveiti (ég hef yfirleitt 50/50)

1 tsk salt

1-2 msk sykur

1 msk oregano

1/2 dl ólívuolía

2,5 dl vatn (37-39°C, fingurvolgt)

Þurrefnum er blandað saman, volgu vatninu og olíunni bætt við. Þetta er hnoðað saman í 5 mínútur. Látið hefast í 30 mínútur. Mótið síðan í 2-4 hringi. Látið hefast í aðrar 30 mínútur. Ég ákvað að búa til kryddsmjör og smella ofan í brauðið.

smjör

maldon salt

oregano

2 hvítlauksrif

Þetta er maukað saman með gafli (hvítlauksrifin í pressu) og síðan er klessum stungið ofaní deigið þegar það er búið að hefast í annað sinn.

Bakað við 200°C í um það bil 15 mínútur.

Kjúklinga og grænmetisbaka

Smjördeig:

100 g smjör

um það bil 5 dl heilhveiti eða hveiti

100 ml kalt vatn

salt

Þessu er blandað saman í skál með höndunum, fyrst bara smjörinu, hveitinu og saltinu, síðan er vatninu bætt við, þetta er síðan flatt út og komið fyrir í eldföstu móti.

Fylling:

sveppir

1 rauð paprika

1 laukur

2 hvítlauksrif

2 gulrætur

1/4 piparostur (átti hann í ísskápnum og skellti honum með)

krydd (salt, pipar, paprika, cayenne pipar, kjúklingakrydd)

100 g ostur (gott að rífa hann niður)

1 dós sýrður rjómi

steiktur kjúklingur

Grænmetið er allt steikt á pönnu uppúr slettu af ólívuolíu. Ostinum er bætt við ásamt kjúklingnum og kryddinu. Látið kólna aðeins áður en sýrða rjómanum er bætt við. (Smakkið og kryddið meira ef þarf). Setjið fyllinguna   ofaná smjördeigið og dreifið slatta af rifnum osti yfir.

Bakið við 180°C í 25 mínútur.

Borið fram með fersku salati.

Hjónabandssæla

Öllum hráefnum (nema sultunni) er blandað saman í stóran „klump“ (gott að nota hrærivél), hluta af deiginu er smellt í smurt form. Svo er deigið þakið með góðri sultu og að lokum er restin af deiginu dreift yfir. Það er sniðugt að fletja út restina af deiginu og skera það svo í ræmur og raða sitt á hvað, einnig er gott að hafa smá kant í hliðunum.

180 g heilhveiti eða hveiti

100 g sykur

100 g púðursykur

160 g haframjöl

70 g kókosmjöl

30 g sesamfræ

2 tsk vanillusykur

1 tsk lyftiduft

1 egg

220 g smjör (við stofuhita)

jarðaberja og rabarbarasulta eða einhver önnur góð sulta

Bakað við 180°C í 30 mínútur.

Heimagerð pítsa og pítsusósa

Pítsa gerð frá grunni:

200 g hveiti

200 – 250 g heilhveiti

1 tsk maldon salt

1 msk oregano

2 tsk þurrger

2 msk ólívuolía

2 dl heitt vatn

1 dl AB-mjólk eða súrmjólk

Þurrefnunum er blandað saman í hrærivélarskál. Þá er allur vökvi blandaður saman og passað vel upp á hitastigið (37-39°C eða fingurvolgt). Vökvanum er bætt út í þurrefnum og þetta hnoðað saman í 5 mínútur. Deigið er svo látið hefast í 30 mínútur.

Á meðan deigið er að hefast er tilvalið að útbúa pítsusósu:

1 dós hakkaðir tómatar

1 lítil dós tómatpúrra

1 laukur

2-3 hvítlauksgeirar (eftir smekk)

dass af salti

oregano, basilika, timjan (ég mæli þetta ekkert, smakka bara til)

1 tsk hunang eða sykur

Skerið laukinn og hvítlaukinn í litla bita og steikið upp úr olíu í litlum potti. Bætið síðan tómötunum og tómatpúrrunni úti, ásamt kryddum og sætu. Látið sósuna malla í 15-20 mínútur.

Ofan á pítsuna set ég svo einn poka af pítsaosti og um það bil hálfan poka af mozzarellaosti. Svo bara það álegg sem hentar hverjum og einum.

Pítsan er bökuð við 220°C í 10-15 mínútur.

Pestó kjúklingur

3-4 kjúklingabringur

1 krukka rautt pestó

1 krukka fetaostur

1 tsk cayenne pipar

Kjúklingurinn er skorinn í frekar litla bita. Fetaosturinn er maukaður útí pestóið og cayenne piparnum skellt útí. Gott er að láta kjúklinginn marínerast í þessu í 1-2 tíma, en það má líka setja þetta bara beint í ofninn (190°C í 30 mín). Ath. þennan rétt þarf ekkert að salta aukalega, fetaosturinn sér um að salta réttinn!

hálf sæt kartafla

1 rauðlaukur

salt

oregano

ólífuolía

Sæta kartaflan er skorin í mjóar ræmur, rauðlaukurinn hakkaður. Þetta er sett í eldfast mót, salti og oregano stráð yfir og dass af ólívuolíu. Þetta fer svo inn í ofninn ásamt kjúklingnum (190°C í 30 mín).

spínat

rauð paprika

vínber

fetaostur

Ljúffengt og ferskt salat!

Svo er sniðugt að nýta afgangana til að taka með sér í nesti. Minnkum matarsóun!

Grjónagrautur

Þessi uppskrift kemur upphaflega frá Hússtjórnarskólanum í Reykjavík.

2 dl hrísgrjón

4 dl vatn

1 líter léttmjólk

1/2 tsk salt

2-3 tsk vanillusykur

Grjónin eru soðin uppúr vatninu í um það bil 10 mínútur eða þar til vatnið er að mestu gufað upp. Þá er mjólkinni bætt við og grauturinn látinn sjóða þar til hann er orðinn mátulega þykkur. Þegar grauturinn er farinn að þykkna er saltinu og vanillusykrinum bætt við.

Borið fram með kanilsykri, rúsínum, mjólk og lifrarpylsu.